Monday, October 31, 2005

Afmæli, afmæli, afmæli...




Jæja, þá eru afmæli yfirstaðin í bili. Þorsteinn Óli varð fimm ára í dag og réttilega ánægður með það. Maður gleymir því stundum hversu ótrúlega, svakalega, mikilvæg afmæli eru hjá börnum. Það fyrsta sem Þorsteinn gerði í morgun var að mæla hvað hann náði langt á mér... og var ekki frá því að hann hafði stækkað talsvert í nótt :) Hann bauð leikskólasystkinum sínum uppá frostpinna og mættu mér því 20 græn andlit þegar ég náði í hann. Fórum svo á McDonalds að ósk afmælisbarnsins. Fínn dagur.


Stefán bauð sýnum bekkjabræðrum heim í vikunni og það var mikið stuð eins og við var að búast. Hann var svakalega ánægður með veisluna og þá var tilgangnum náð. Sameiginlegt "fjölskylduafmæli" þeirra bræðra var svo haldið í gær. Synir mínir eyddu 90% af tímanum inní herbergi að æfa í hljómsveitinni sinni. Gaf Þorsteini nýtt trommusett (hitt var í molum) þannig að nú getur hann bakkað bróður sinn almennilega upp í gítarleiknum. Gaman af því - svo lengi sem það er lokað inn til þeirra!

Annars er allt gott að frétta. Eins og alþjóð veit er búið að vera kalt á klakanum þannig að tímarnir eru vondir fyrir kuldaskræfur eins og mig! Hlakka til eftir svona mánuð þegar jólaljósin verða farin að lýsa upp þetta endalausa myrkur úti...

Wednesday, October 26, 2005

Kitl! Næstum eins og "klukk!"

Allir eru að "kitla" og "klukka" hvern annan núna - allt í lagi. Svei mér þá, blogglestur styttir
stundir svo here goes:

1. Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:

Fara á matreiðslunámskeið
Heimsækja vinkonur mínar út á landi
Eignast litla stelpu (í mjög fjarlægri framtíð!)
Láta laga eldhúsið mitt
Fá mér tattoo
Láta syni mína bjóða mér til útlanda
Verða sjálfstæður atvinnurekandi


2. Sjö hlutir sem ég get:

Grillað pulsur
Labbað eins og Shrek
Farið í splitt
Keyrt án þess að muna eftir því
Nuddað axlir á fólki
Skipt 10 sinnum um skap á 5 mínútum
Sofnað hvar og hvenær sem ég vil

3. Sjö hlutir sem ég get ekki:

Verið harður töffari
Farið snemma að sofa
Drukkið bjór
Lagað eldhúsið mitt
Skipulagt mig fram í tímann
Horft á Íslenska Bachelorinn
Nuddað axlirnar á sjálfri mér


4. Sjö hlutir sem heilla mig við hitt kynið:

Falleg augu
Hæfileikar
Húmor
Sjálfstæði
Fallegar hendur
Útgeislun
Greind

5. Sjö frægir sem heilla:

Johnny Depp
Ethan Hawke (í Reality Bites)
Viggo Mortensen
Cameron Diaz
Bono
Matthew McConaughey
Catherine Zeta-Jones

6. Sjö orð eða setningar sem ég segi oft:

"'Ísfugl, góðan dag"
"STRÁKAR!"
"já ok"
"Ái!"
"Mig langar...."
"Flýtið ykkur!"
"ég veit það ekki, þú ræður!"

7. Sjö hlutir sem ég sé einmitt núna:

Headset
Mynd af Stefáni í brunabíl
Brotinn hænu-ísskápssegull
Citect- The Can Do Software músarmotta
Fullt af gulum Post-it miðum
Sjúkrakassi
Úðabrúsi með spritti!
-----------------------------------------------------

Eruð þið einhverju nær? Er þetta eitthvað sem þið ekki vissuð? :D

Ég tek þátt í "kitlinu" að þessu sinni og "kitla" Guðrúnu og Mæju pæju! Go Nuts!

Sunday, October 23, 2005

Stóri strákurinn minn


Stebbi varð sjö ára í gær. Ótrúlegt hvað sjö ár eru bæði fljót og lengi að líða :)

Fljótt að líða að sumu leiti og lengi að öðru. Þetta litla dýr breytti öllu lífi mínu og ég er ótrúlega þakklát fyrir að eiga hann, þó að hann hafi komið svolítið óvænt :)

Afmæli var ekki haldið formlega á laugardaginn, hann fékk samt pakka og við fórum á KFC. Strákunum í bekknum verður boðið heim á miðvikudaginn og næstu helgi verður fjölskylduafmæli þeirra bræðra. Steini á afmæli 31.okt svo það er fínt að slá þessu saman. Á myndinni er hann með gítarinn hans Jóa. Hann hékk með hann þangað til að hann varð þreyttur í bakinu. Það kostar fórnir að vera rokkari :)

Ætla að vera til ófyrirmyndar og kaupa afmælisköku fyrir bekkjarafmælið á miðvikudaginn. Kostar skít á priki og er mjög flott. So why not?!

Annars var þetta fín helgi. Fór á opnun á hárgreiðslustofunni Texture á laugardagskvöld og kíkti svo í afmæli til frænda hans Jóa. Þetta var allt mjög fínt svona miðað við að maður þekkir ekki marga :) Vorum komin snemma heim (kl. 23) og þá búin að standa í fimm klukkutíma. Mér var illt í bakinu fyrir vikið (ég er aumingi).

Læt'etta duga í bili - hafið það gott!

Thursday, October 20, 2005

Nýtt commentakerfi í dag!

Jæja náði mér í annað commenta-kerfi á þetta blogg í von um að helv. spam-bloggið hætti. Veriði nú dugleg að tjá ykkur, gott fólk.

Ég er búin að vera á "auto-pilot" í allan dag sem þýðir að ég vinn eftir ákveðinni 10 ára gamalli, mjög þjálfaðri rútínu og get slökkt algjörlega á heilanum á mér á meðan. Svona dagar eru nauðsynlegir af og til. Fínt er að kveikja á "auto-pilotinum" strax á leiðinni í vinnuna. Þetta orsakar að ég man oft ekki eftir því að hafa keyrt í vinnuna en það er önnur saga...!

Eldri sonur minn verður sjö ára á laugardaginn. Sjö ára já. Heyrirðu það Guðrún!? Hann er að verða sjö!! Keypti afmælisgjöf handa honum í gær. Pakkinn í ár kemur til með að innihalda úlpu, tvær herramannabækur og DVD tónleikadisk með KORN.

Já, ykkur finnst kannski skrýtið að Hr. Skellur og tónleikar með KORN fari í sama afmælispakkann en svona er þetta. Stebbi er brjálaður rokkari en jafnframt mikill aðdáandi herramannana.

Afmæli verður þó ekki haldið formlega þessa helgi heldur þann 30. október. Þá held ég sameiginlegt afmæli fyrir þá bræður. Steini verður nebbilega fimm ára þann 31.október... fimm ára. Þessir drengir eru auðvitað gríðarlegur mælikvarði á hvað tíminn líður hratt. Þetta hlýtur að þýða að ég er að verða gömul kona! Mér finnst ég alltaf vera bara einhver krakkavitleysingur og er alltaf að bíða eftir því að verða fullorðin, ábyrg og þroskuð! Ég er orðin hrædd um að það gerist varla úr þessu ... held bara áfram að vera vitleysingur í eldgömlum líkama. Arrg.. hræðileg tilhugsun!

Það var sannkallaður letidagur hjá mér í gær því synirnir gistu hjá ömmu í Grófó í nótt. Fór í ljós og í Smáralind og svo að skoða tvær íbúðir með Jóa. Önnur var í Gljúfraseli og var hálfskrýtin eitthvað. Mjög undarlega skipulögð. Allavega ekki heillandi. Hin var í Hraunbæ og var mjög vel skipulögð og rúmgóð. Samt ekki "the" íbúðin. Markaðurinn hefur reyndar lítið breyst síðan ég var að kaupa í vor þannig að ég get gert sjálfa mig að sérlegum ráðgjafa við val á íbúð. Spurning hvort einhver hlustar á mig hinsvegar :-) Ég hreyfði svo hvorki legg né lið eftir að heim var komið. Eldhúsið mitt var hertekið og hálftíma seinna fékk ég frábæran pottrétt inní stofu. Hreint út sagt guðdómlegt ástand... :-)

Ég er hinsvegar alltaf að bíða eftir því að eldhúsið mitt verði klárað :-( Er orðin ansi vondauf um að þetta klárist nokkurntíman að öllu óbreyttu. Þarf að setjast niður með smiðnum mínum og reyna að ákveða hvað hægt er að gera. Ég enda sjálfsagt með því að kaupa bara innréttingu. Núverandi ástand er ömurlegt og ég er orðin mjög þreytt á því að hafa hálft eldhúsið mitt inní svefnherbergi!

Jæja, læt þetta duga í bili. Ætla að stilla aftur á "Auto-pilot".

Monday, October 17, 2005

Bakstur fyrr og síðar

Ég sá mér til mikilliar skelfingar í gærmorgun að ég átti ekkert brauð. Þar sem ég var í ágætis stuði ákvað ég að baka brauð. Svona rétt eins og mamma gerði í gamla daga þegar ekki var til brauð.

Sjálfsagt eyddi ég samtals klukkutíma í baksturinn sem heppnaðist ágætlega. Sá hinsvegar strax að þetta er ekki sama hagkvæmnin og þetta var í gamladaga þegar ég var krakki.

Fyrir það fyrsta eru brauð mjög ódýr í dag. Stórt heimilsbrauð kostar kringum 120 krónur. Hráefnið í brauðið mitt var mun dýrara, svo ekki sé minnst á tímann sem fór í bakstur og þvott á hveitklístruðum áhöldum. Svona heimabökuð brauð (eins góð og þau eru nú) endast heldur ekki eins og venjuleg, keypt brauð.

Ég held að það sé það sama hægt að segja um margt sem húsmæður gerðu í den. T.d. sultugerð. Tíminn sem ég myndi eyða í berjatínslu, hreinsun og suðu í sultugerð myndi engann veginn borga sig! Heldur ekki sláturgerð. Þetta er ótrúleg uppgötvun fyrir mig - ég sem ætlaði að verða svona gamaldags húsmóðir!

Er hins vegar ennþá að bíða eftir því að það verði ódýrara að fara með föt í hreinsun heldur en að þvo þau sjálfur... please god, let that day come soon!

Wednesday, October 12, 2005

Svartur húmor...

Fékk sendann link á brandarasíðu sem heitir Bunny Suicides. Þó að ég hafi hugsað margoft meðan ég skoðaði þessa brandara "oj, hvað þetta er nasty", þá hló ég samt eins og geðsjúklingur. Kannski er ég bara þreytt, svöng og einmana í vinnunni og finnst þetta fyndið útaf því ;)

Annars er allt gott að frétta. Sama geðveikin og venjulega hérna í vinnunni en allt gengur þó vel. Þegar ég fór að heiman frá mér í morgun var allt hvítt úti. Ekki mikill snjór en nóg til þess að maður fengi smá hroll og hugsaði til nagladekkjanna í skottinu. Mér finnst reyndar allt í lagi að hafa smá snjó... smá! Það lýsir aðeins upp þennan annars dimma tíma sem fer nú í hönd.

Sofnaði loksins á kristilegum tíma í gærkvöldi eða uppúr 23:00. Ætlaði að horfa á Jay Leno en endaði hrjótandi í sófanum. Það þurfti 5 tilraunir til að vekja mig aftur. Þó að það sé vissulega kostur að sofa fast þá getur það líka verið svolítill ókostur. Sérstaklega þegar ég virðist oft vera vakandi og segi allskyns þvælu sem ég man ekki eftir :-/

Svo lengi sem ég er ekki að senda fólk sms í svefni er ég samt nokkuð sátt.

Tuesday, October 11, 2005

ZZZzzzzzzz!

Vá, hvað ég var þreytt í morgun! Það er ekkert að hjálpa manni að það sé orðið dimmt á morgnana - líður eins og ég sé að vakna um miðja nótt :/

Ég verð að fara fyrr að sofa! Öllu jafna er ég að sofna milli klukkan 00:30 - 02:00. Sem er ekki gott því ég vakna klukkan 6:30. Eins verð ég að láta synina fara fyrr í rúmið. Í gær sofnuðu þeir klukkan hálfníu og voru því mjög þreyttir í morgun. Hálfátta er málið! Þeir vildu bara kúra áfram undir sæng í morgun. Það er mjög erfitt að vera ákveðið foreldri í svona tilfellum, maður er að berjast við að hoppa ekki sjálfur aftur undir sæng. Skildi þá mjög vel!

Loksins er ekki massíf undirmönnun hérna í vinnunni. Þrír nýir starfsmenn mættir til leiks. Jei! Þarf að temja þá og berja í nokkra daga. Brjóta þá niður andlega og láta þá kalla mig Guð. Bara þetta venjulega ferli þegar ég ræð nýtt fólk í vinnu....

Jæja, ætla að sitja grafkyrr og láta mig dreyma um að ég sé sofandi!

Ekki trufla mig!

Monday, October 10, 2005

Mánudagsröfl

Enn einu sinni er víst kominn mánudagur og netið hérna í vinnunni er í fokki sem aldrei fyrr! Óskiljanlegi tölvukallinn er væntanlegur til að kíkja á þetta. Sem þýðir að ég þarf að koma mér í burtu um leið og hann kemur. Síðast þegar hann kom blaðraði hann við mig í tíu mínútur og ég skildi ca. 7 orð af öllu sem hann sagði. Og þá erum við að tala um orð eins og "já", "og", "nei" og slík smáorð. Skrýtið að fólk sem að talar svona svakalega óskýrt reyni ekki að bæta sig.. hlýtur að vera pirrandi að það sé sagt 100 sinnum "ha?!" mann á dag. En hvað veit maður, kannski er hann búinn að bæta sig heilmikið... kannski var hann algjörlega óskiljanlegur einhverntímann :)

Langur vinnudagur í dag þar sem hinn verkstjórinn er enn einu sinni farinn í frí. Eða núna er hann reyndar á "námskeiði"... Í Lettlandi! Gaman að vita hvað hann lærir mikið á því - hugsanlega lítið nema að segja "skál" á lettnesku ef ég skil svona "námskeið" rétt.

Ágæt helgi að baki. Gerði svosem ekki mikið, hékk bara. Fékk svo skaðræðis magapínu í gær - hélt ég væri komin með matareitrun á háu stigi. Er góð í dag svo að þetta hefur ekki verið neitt alvarlegt. Hugsanlegt að óútskýranlegt geimverufóstur hafi tekið sér bólfestu í líkama mínum. Líklegasta skýringin hingað til.

Jæja, back to work. Have a nice day, suckers!

Tuesday, October 04, 2005

Skrýtna nútímafólk...

Las grein um helgina eftir Héðin Unnsteinsson (held örugglega að hann heiti það) sem er einhver WHO sérfræðingur í geðheilbrigðistmálum að mér skilst. Hann var að skrifa um sjálflægni nútímafólks og hvernig það gæti hugsanlega haft áhrif á geðheilbrigði. Mér fannst þetta snilldargrein hjá honum. Meðal annars segir hann í greininni:

"Það er eins og það renni upp fyrir mér þessa dagana að e.t.v. sé það besta sem ég get gert fyrir sjálfan mig það að gera eitthvað fyrir aðra. Að þversögn lífsins og lífshamingjunnar sé að gefa það sem manni langar mest í sjálfum. Það hljómar hálf öfugsnúið á tímum sem einkennast af andhverfu þess fyrrnefnda. En þannig er það samt, jafnvel þó nær allt umhverfi okkar segi annað, þá ber okkur að hugsa útfyrir okkur sjálf í þeirri viðleitni okkar að verða að gagni og gleyma eigin tilvist. Þannig náum við lífsflæðinu, því sama og þegar við vorum börn og gleymdum tíma og stund í leik. Þannig erum við best, án sjálfshyggju og hamingjusöm í tóminu. "

Mér finnst þetta mjög góður punktur. Það er búið að innprenta svo í fólk að það eigi að hlúa vel að sjálfu sér, hugsa fyrst um sig og vera gott við sjálft sig. Er það nóg? Langar okkur ekki öllum líka til að einhver annar sé góður við okkur, hugsi um okkur og láti okkur liða vel? Hvar á maður að leita eftir slíku ef allir eru með sjálfa sig efst í forgangi? Ég vitna aftur í snillinginn hann Héðinn :

"Það sem við öll þurfum og þráum: athygli er æ erfiðara að upplifa í heimi sem nærist á sjálfhyggju."

Á meðan allir eru að keppast við að "finna sjálfa sig", "gefa sjálfum sér tíma", "rækta innra sjálfið" eða "uppgötva sjálfa sig uppá nýtt" þá gleymist algjörlega það frábæra og sígilda concept að það sé betra að gefa en þiggja.

Allir vilja athygli, allir vilja alúð og umhyggju. Og flestir vilja það frá fleirum en sjálfum sér á endanum :)

Þetta var hugvekja dagsins í boði Gevalia með undirleik Gorillaz. Hafið það gott í dag og verið góð við aðra líka.

Monday, October 03, 2005

Music is the Doctor!

Er búin að vera súperdugleg í morgun. Tók þvílíka rispu í uppsafnaðri pappírsvinnu á methraða. Búin að hlusta á allskyns tónlist í allan morgun og ég vil meina að það orsaki einstaklega gott skap og mikil afköst :)

Dýralækna-skrattinn er búinn að vera eins og grár köttur hérna í allan morgunn að taka einhver vatnssýni. Hef því þurft að slíta mig frá heittelskuðum headfóninum af og til. Ætli hafi verið gerð rannsókn á vinnuafköstum hjá fólki sem fær að hlusta á tónlist annarsvegar og þeim sem hlusta ekki á tónlist hinsvegar? Gaman væri að sjá niðurstöðurnar úr svoleiðis rannsókn.

Október bara kominn. Eintóm leiðindi í október - fyrir utan afmæli sonanna að sjálfsögðu. Eins og ég hef oft sagt og skrifað þá er þetta með öllu tilgangslaus mánuður (af undanteknum áðurnefndum afmælum). Þeir þarna í himnaríki hafa eflaust hagað því þannig með vilja að ég myndi fæða börn í þessum mánuði svo ég myndi ekki fara yfirum af leiðindum í október!
Af hverju er þessi mánuður? Afhverju voru ekki bara allir hinir mánuðurnir lengdir um nokkra daga og október bara sleppt?! Og afhverju finnst mér október svona leiðinlegur? You tell me...

Allavega held ég að þessi október verði með skárra móti :)

Sweet dreams, little bugs!

Saturday, October 01, 2005

Skytturnar þrjár!


Í dag er búið að vera mikið stuð á heimilinu. Fórum í Mjódd þar sem Þorsteinn var að syngja með öllum leikskólum Breiðholts á sk. Breiðholtsdegi :)

Almar Freyr, litli strumpurinn hans Jóa var svo hjá okkur restina af deginum og er óhætt að segja að þegar saman eru komnir þrír strákar á aldrinum 3,5 og 7 er mikið stuð í gangi. En það gengur þó ótrúlega vel, sérstaklega þegar er búið að taka öll sverð og barefli úr umferð! Þeir eru algjörir snillingar :)

Myndin er tekin í sumarbústaðnum sem við vorum í, í ágúst.... á einhverju ótrúlegu augnabliki þar sem brjálæðingarnir sátu actually allir kyrrir.

Annars er lítið að frétta, lífið heldur áfram og ég flýt með.

Chao í bili
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com