Wednesday, December 27, 2006

Jólakvaþ?

Þá eru aðfangadagur, jóladagur og annar í jólum yfirstaðnir og allir eru ennþá spriklandi á lífi (e. alive and kickin'). Þetta stress og hamagangur sem fylgir þessari hátíð er alltof, alltof mikið. Alltof.

Í vikunni fyrir jól sá maður stressið magnast hjá fólki (ritari meðtalinn). Fólk fór að líta undarlega á mann og hreyta út úr sér "ertu búin að gera allt fyrir jólin???". Þegar maður svaraði neitandi að þá létti yfir fólki og það eygði von um að vera ekki einu aumingjarnir sem næðu ekki að "klára allt" fyrir jólin. Þetta er satt. Þetta er klikkun!

Maður má þakka sínum sæla fyrir að hafa ekki orðið undir a.m.k. 50 innkaupakerrum, 30 bílum, 120 fjölskyldum, 6 hreindýrum o.s.frv. í þessu brjálæði sem hefur gengið yfir verslunarmiðstöðvar landsins. Af hverju er þetta svona?´

Nú finnst mér ég þurfa að taka það skýrt og greinilega fram að ég tek 100% þátt í þessu rugli. Ég reyni reyndar að keyra ekki yfir fólk í búðum (yfirleitt) en stressið er samt það sama. And for what??

Eitt kvöld. Eitt kvöld þar sem allt á að vera fullkomið. Ekkert má fara úrskeiðis og ekkert má vanta. Guð hjálpi því greyi sem brennir við sósuna eða gleymir að þvo blett úr skyrtu. Ekkert nema sólarhrings fangelsisvist nægir til að refsa þeim vitleysingi.

Aumingja börnin okkar sem eru búin að heyra endalausar jólaauglýsingar, jólatónlist og jólakjaftæði allan mánuðinn eru orðin stjörf af spenningi. Ég held að áreiti á börn í desember sé stórlega vanmetið. Og það virðist alltaf vera að aukast. Og ekki bætum við foreldrarnir svo ástandið með okkar stressi þar sem hver dagur fyrir jól er þaulplanaður og enginn tími fyrir ró og næði.

Og nei ég hata ekki jólin. Ég í raun elska jólin og átti mjög góð jól. En ég finn líka fyrir spennulosi og jólaþynnku (sem á ekkert skylt við áfengi). Það er víst undir hverjum og einum komið hvernig þeir halda sín jól. Næsta ár langar mig að ignora allar auglýsingar, fjölmiðla og samfélagið almennt og halda jól í bústað lengst út í sveit. En kannski er það ekki alveg jafngaman... :)

GLEÐILEG JÓL KÆRU VINIR!!

Wednesday, December 13, 2006

Jólasnjór, jólapakkar, jólapanikk....




Damn... 11 dagar í jól!!

Hvað er málið með tímann og hvers vegna er hann allt í einu með rakettu í rassgatinu?

Ég er orðin stressuð útaf þessu öllu sem er algjörlega það sem ég ætlaði EKKI að gera. Ég er að fara að upplifa mín þrítugustuogfyrstu jól og ennþá er ég ekki búin að læra að byrja FYRR á jólaundirbúningi!!

Hvað er ég búin að gera?

Gjafir keyptar: tvær! og ég keypti þær í gær....

Jólakort skrifuð: Ekkert!

Jólaföndur: Einn aðventukrans!

Bakstur: enginn (nema afmælisbakstur og hann telst ekki með!)

Jólalög sungin: nokkur

Jólalög sungin fyrir aðra: Tvö... og var beðin um að þegja.

Jólaskreytingar heima hjá mér: Ástand bagalegt!

Jólafílingur í prósentum: 63% ... sem er slæmt miðað við daga til jóla!

God damn it, will I ever learn???

Monday, December 04, 2006

ahha...


Ég vissi það. Það kom mánudagur aftur strax! Ég var að vona að þeir myndu bara sleppa þessum mánudegi úr... en nei. Mánudagur it is...

Byrjaði vikuna vel. Svaf yfir mig. Vaknaði ekki fyrr en 7:27 og það af sjálfsdáðum. Þoli ekki svona. En sem betur fer gat ég bara klætt mig, burstað tennur og hoppað út í bíl því að synirnir eru hjá pabba sínum.

Helgin var góð. Eyddum laugardeginum í tiltektir og framkvæmdir í sameigninni hjá Jóa. Það góða við svona daga er að manni líður svo vel þegar þeir eru á enda :). Gærdagurinn var mun meira chill. Heimsókn til "tengda"ömmu og afa og svo settum við upp jólaskraut hjá Jóa. Mitt jólaskraut er hinsvegar svo langt og djúpt grafið inní geymslu hjá mér að ég þarf hjólsög, dínamít og krana til að ná því. Mun reyna að gera það í dag samt. Hvar fær maður dínamít á þokkalegu verði?

Keypti mér jólakjól í gær líka. Ég skemmdi fína, fína rauða kjólinn sem kallinn minn gaf mér. Þegar ég var að fara á jólahlaðborðið síðustu helgi þá kom blettur í hann :( Mjög leiðinlegt því að þetta er klikkað flottur kjóll. MÆJA! Þú verður að kíkja á hann með mér, kannski er hægt að bjarga honum! Þú ert mín síðasta von!

Sunna systir er kát í Kína fyrir utan að farangurinn hennar klúðraðist og varð eftir í London. Lesa má grein eftir hana í Mogganum í dag beint frá Kína! Hún ætlar að kaupa handa mér svona kínverskan kjól, svona úr silki og öklasíðan - handmade og allt. Hmm... er ég að verða kjólafíkill? Nei,nei. Ég kaupi mér mjög sjaldan föt þannig að þetta er allt í lagi :)

Annars er bara allt það besta að frétta. Hugurinn er kominn þónokkuð við jólastússið og það er gott. Komst bara í ágætis jólaskap í gær við að keyra um Garðabæinn og skoða flottu jólaljósin. Heyrði svo "Do they know it's Christmas" og þá kom sjálfur jólaandinn alveg beint í æð. Segi það enn og aftur... máttur tónlistar er ómetanlegur og engu líkur.

Bæ að sinni, folks.

Friday, December 01, 2006

Loksins...

... er kominn föstudagur. Loksins, loksins, loksins. Þessa vika hefur verið löng og leiðinleg og ekkert meira um það að segja.

Ég tók eftir því áðan að það vantar fínu fínu myndina mína á bloggið mitt í hægra hornið. Vitiði útaf hverju?? Ha? Vitiði það?? Ég skal segja ykkur það.

Myndin var vistuð á heimasvæðið hjá kallinum mínum. Og þar sem úrþvætti alheimsins eyddi heimasvæðinu hans um daginn þá hvarf myndin mín. Angar eyðileggingarnar teygja sig víða. Kæmi mér ekki á óvart þó að Seðlabankinn, Alþingi og Leifstöð lægu niðri líka.. en það væru svosem smámunir miðað við að eyða mynd af hinni kátu kókoshnetu!

Sunna systir er að fara til Kína á morgun. Sem blaðamaður verður hún viðstödd opnun hjá Glitni á kínversku útibúi. Ég væri alveg til í að skreppa með, jafnvel sem handfarangur. Örugglega ekkert leiðinlegt að kaupa jólagjafir í Shanghæ!

Jæja, best að fara að vinna eitthvað - og njóta þess að það sé föstudagur. Því að bráðum verður kominn mánudagur aftur sjáiði til....
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com