Thursday, October 09, 2008

Hversu ömurlegur...

... bloggari er ég??

Þið sem ennþá nennið að lesa fyrirgefið mér vonandi.

Þrátt fyrir fjölmiðlaterror og kreppu þá hef ég það bara fínt. Já, ég er ein af þeim sem að veit ekki hvort minn eini sparnaður (í peningabréfum Landsbankans) er týndur og tröllum gefinn.

So??

Þetta eru bara peningar og ég er orðin soldið leið á því að forsætisráðherra segi mér að vera róleg, óttast ekki og hlúa að fjölskyldunni minni.

Ég tók ekki þátt í "góðærinu" á Íslandi. Ég held að ég hafi bara hreinlega misst af því !!! Ég var alltaf að bíða eftir því að röðin kæmi að mér að fara til útlanda þrisvar á ári og kaupa nýjan Land Cruiser. Nú eða eignast einbýlishús í Leirvogstungu með innbyggðri halogenlýsingu, tyrkneskum marmaraborðum og platínuhúðuðum blöndunartækjum. En fuck... ég missti af þessu öllu!!!

Svo núna situr maður bara eins og sökker í vinnunni sinni. Ég sem ætlaði líka að verða stórlax í viðskiptum og eignast fyrirtæki sem endaði annað hvort á Group eða Invest! Kommon... ég ætlaði að fá 20 mill. í mánaðarlaun FYRIR UTAN bónusgreiðslur.

Og þyrlan maður... þyrlan! Hún átti að vera gul með bleikum spöðum og vera þekkt um gjörvallan heiminn sem "flotta gula þyrlan"! Og... þið vitið... ég ætlaði að vera ótrúlega ríka konan sem ætti flottu gulu þyrluna :(

Fötin mín ætlaði ég EINGÖNGU að kaupa sérsaumuð af flippuðum, ofmetnum hönnuðum á ofskynjunarlyfjum.

Laxveiði átti að verða nýja áhugamálið mitt og jafnvel veiði á dýrum í útrýmingarhættu. Maður verður jú að gera eitthvað spes þegar maður er ríkur.Skítt með það þó að það sé hundleiðinlegt að sveifla einhverri veiðistöng - það er SVALT! Og myndi óneitanlega segja hversu rík ég væri.

Kannski myndi ég henda einni og einni millu í einhver vinsæl góðgerðarsamtök eins og Unicef. Bara til að geta brosað auðmjúk framan í fréttaljósmyndarana, látandi af hendi ofvaxna ávísun með fullt af núllum. Því að þegar maður er ríkur þá er maður ótrúlega góðhjartaður, er það ekki?

Í afmælispartýinu mínu ætlaði ég að sameina gömlu góðu KISS til að spila undir borðum og jafnvel fá einhvern fyndinn eins og David Letterman til að vera veislustjóra. Vá hvað allir myndu öfunda mig og fólk myndi verða mjög uppi með sér að vera boðið í afmælið mitt.


En... ég missti af þessu. Sökkerinn ég. Og nú bíður mín ekkert nema vinna og volæði. Vona að þeir sem tóku þátt í þessu hafi notið þess í botn. Þið sendið mér svo bara reikninginn og hann fer beinustu leið í greiðsluþjónustu hjá Nýja Landsbankanum hf.

Blessi ykkur elskurnar (ég hlúi að ykkur í huganum að ráði forsætisráðherra).
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com