Sunday, January 22, 2006

Sé loksins fyrir endann á þessu eldhúsi!


Jæja, í vikunni gerðust þau undur og stórmerki að ég fékk borð- plötuna mína :)

Þurfti hjálp þriggja vaskra manna við að koma henni hérna inn enda langt að fara frá bílastæði (sem er btw mjög pirrandi). En eins og áður sagði, þá fékk ég hjálp frá hressum mági, heitt elskuðum kærasta og múraranum sjálfum. Þvílík þyngd, tvær borðplötur milli 150-200 kg. hvor.

Ekki reyndist þetta allt passa saman sem skyldi en það er aukaatriði í bili og er verið að vinna að úrbótum :)

Pabbi kom svo í gær og tengdi vatnið aftur :D Þvílíkur lúxus að hafa svona vatn í eldhúsinu sínu!! Steini afi kom svo og setti lista undir skápana og eina plötu. Hann ætlar að reyna að ljúka sínu verki hérna í dag. Hvað er þá eftir? Jú... eins og þið sjáið er veggurinn milli skápana ennþá eins og sýkt tröll hafi snýtt sér á hann. Well, múrarinn bauð áframhaldandi þjónustu og ætlar að steypa plötur á vegginn og föndra eitthvað við hann. Skil ekki aaalveg hvað hann var að meina en það lofaði góðu :) Helluborðið er líka komið í samband svo ég gæti soðið mér ýsu... ef ég vildi það á annað borð.

Það er alveg lygilegt hvað koma upp mörg smávægileg vandamál. T.d. bara í gær komu upp eftirfarandi vandamál sem töfðu okkur um marga klukkutíma:
1. Heitavatns inntaksrörið er á fáránlegum stað og það þurfti að pípa einhverja spes leið frá því.
2. Innstunga sem átti að vera fyrir uppþvottavél var dauð með öllu. Tók einn og hálfan tíma að finna útúr því.
3. Það vantaði ca. 40 cm upp á listana undir skápana. Þetta kostaði ferð í IKEA og heilan 180 cm. lista fyrir 2800 krónur.
4. borðplatan reynist vera ca. einum cm of stutt. Það þýddi major vesen til að uppþvottavélin komist á sinn stað.

Svona vandamál valda því að þó að það líti alltaf út fyrir að vera bara pínulítið eftir að þá er það ekki raunin.

Ofsalega er ég fegin að þetta sé að verða búið. Og ofsalega er ég þakklát fyrir alla hjálpina sem ég hef fengið.

Er búin að vera að reyna að taka aðeins til hérna... mér skilst að það sé ekki gáfulegt að raða inní skápana ennþá þar sem ennþá á eftir að saga og bora eitthvað ennþá. Er að fara að setja hillurnar inní skápana núna. Það hlýtur að vera í lagi.

Góðar stundir og takk fyrir að lesa ;)

Monday, January 09, 2006

Svei...

Í dag er 9. janúar sem þýðir að það eru 22 dagar eftir af mánuðinum. Sem er ekki gott. Ástæða: fjárhagsáætlun er í rúst!

Ef að ég lifi af þennan mánuð... og hugsanlega næsta mánuð - þá verð ég glöð. Og ef ég lifi alveg fram í ágúst... þá verð ég ennþá glaðari! Nei ok. Ástandið er nú ekki svo slæmt en verra en ég er búin að venjast. Kannski af því að ég keypti uppþvottavél á laugardaginn... yebb, ya heard me... Uppþvottavél!!! Er reyndar ekki búin að sækja hana, hún er bara í búðinni að bíða. Bíða eftir elsku Hönnu sinni. Við verðum góðar vinkonur, ég og vélin. Annars er ástand eldhúss óbreytt. Enn að bíða eftir borðplötunum, smiðurinn á enn eftir að festa einn skáp o.s.frv. En þar sem ég er full af stóískri ró (ásamt hóflegu magni slakandi lyfja) þá kippi ég mér ekki lengur upp við svoleiðis smámuni. Og að sjálfsögðu er ég að berjast við að standa við áramótaheitið og hafa stjórn á skapinu ;)

Helgin var ágæt, þrír litlir gaurar í action :) Fór til læknis á fimmtudaginn sem tilkynnti mér að sennilegast væri ég með ónýtar taugar í hendinni. Aha. Frábært. Svona var samtalið við lækninn:

Ég: Halló læknir, er eitthvað heilt á mér?
Læknirinn: já, önnur miðju-táin og þriðja rifbein vinstra meginn. Annað er ónýtt.
Ég: Ó! Er þessi tá í lagi, semsagt? (bendi á miðjutá)
Læknirinn: já... eða nei ekki lengur. Þú braust hana þegar þú bentir. Núna er rifbeinið það eina sem er heilt. Ég er hræddur um að ég verði skrifa beiðni fyrir þig. Beiðni í Sorpu.

Jámm, svona er lífið. Sorpa getur hins vegar ekki tekið við mér vegna of mikils úrgangsefna eftir jól og áramót. Sögðust ætla að sjá til í mars hvort ég kæmist að.

Wednesday, January 04, 2006

Áramóta ...geit?



Stundum hef ég strengt áramótaheit. Þar sem ég er oft stórtæk á furðulegum sviðum þá hef ég yfirleitt strengt mörg áramótaheit. Sum hafa staðist... önnur hins vegar ekki!!

Áramótaheitið mitt í ár er bara eitt að þessu sinni:

Árið 2006 ætla ég að læra að stjórna skapinu mínu betur!!

Svo má að sjálfsögðu reyna að tileinka sér aðra góða hluti eins og að stunda reglulega líkamsrækt eða hætta að reykja. Sjáum til...

Langar líka að gera eitthvað skemmtilegt... eins og fara til útlanda... á afmælinu mínu. Ég er nebbla að verða 30 ára :-o


Monday, January 02, 2006

2005/2006



Well well well.... þá er eitt árið í viðbót liðið. Í þetta skiptið var það árið 2005 sem var að klárast. Gerum örlitla úttekt snöggvast:

Janúar 2005: Afhverju man ég ekkert eftir janúar 2005?! Nú væri gott að hafa gamla bloggið sitt sem uppflettirit :) Held að ég hafi farið í bústað... samt ekki viss!

Febrúar 2005: Ekkert merkilegur mánuður! Fasteignabrask byrjar og ég kaupi Flúðaselið. Tók rosalega mikið til heima hjá mér á þessum tíma (bara útaf því að íbúðin mín var á sölu!).

Mars 2005: Fæ Flúðaselið afhent og er með magasár útaf sölu á Leirubakka. Stressaður mánuður!

Apríl 2005: Hmmm... apríl. Man ekkert eftir apríl. Magasár útaf Leirubakka halda þó áfram. Fæ mér lögfræðing til að klára sölu á íbúð.

Maí 2005: Sala á Leirubakka klárast loksins. Geðheilsa slæm. Ekki góður mánuður!

Júní 2005: Sumarið byrjar á sambandssliti við hr. Beck. Ég og Sunna förum austur til Helgu á Djúpavog. Kynnist Jóa betur. Góður mánuður :)

Júlí 2005: Vinna vinna vinna, mikið að gera í vinnu. Rámar þó í einhverja sólardaga... gæti verið misminni. Jói flytur tímabundið til okkar, góður sambýlingur það. Fínn mánuður...

Ágúst 2005: þarna tók ég eitthvað lítilsháttar sumarfrí sem varð voða lítið úr. Fór þó í bústað með Jóa og sonunum. Gríðarlegur vinnukvíði gerir vart við sig. Í heildina þokkalegur mánuður.

Sept 2005: hmm.... eins og venjulega á haustin fagna ég því að lífið fari í "fastar skorður" aftur. Mikið að gera í vinnunni.

Okt 2005: Smá af hefðbundnu októberþunglyndi gerir vart við sig. Þó ekki mikið í þetta sinn. Synir mínir eiga afmæli í fimmta og sjöunda skipti.

Nóv 2005: Jói kaupir sér íbúð og flytur þangað. Skrýtið að upplifa samband svona "afturábak". Fer að huga að eldhúsbreytingum. Hannes kemur heim frá USA, sonum mínum til mikillar ánægju. Skrýtinn mánuður.

Des 2005: hér fór tíminn meira í iðnaðarmannastörf heldur en hefðbundinn jólaundirbúning. Líðan líkust rússíbana en er komin í jafnvægi um jólin. Jólin voru stutt og undarleg en alveg ágæt. Árið klárað með fjölskylduvænum áramótum og tveim stórum rakettum! :D

Niðurstaða úttektar: Árið 2005 snarbreyttist þegar það var hálfnað. Til hins betra. Mun betra. Tel mig vera ansi heppna að svo mörgu leiti. Ég á góða íbúð, ég er ágætlega stæð fjárhagslega, ég á tvo frábæra syni, yndislega fjölskyldu og kærasta sem virðist hafa hoppað af "kærasta-óskalistanum" mínum :)



Hef góða tilfinningu fyrir árinu 2006. Gleðilegt ár allir og takk fyrir gömlu góðu árin :*
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com