Afmæli, afmæli, afmæli...

Jæja, þá eru afmæli yfirstaðin í bili. Þorsteinn Óli varð fimm ára í dag og réttilega ánægður með það. Maður gleymir því stundum hversu ótrúlega, svakalega, mikilvæg afmæli eru hjá börnum. Það fyrsta sem Þorsteinn gerði í morgun var að mæla hvað hann náði langt á mér... og var ekki frá því að hann hafði stækkað talsvert í nótt :) Hann bauð leikskólasystkinum sínum uppá frostpinna og mættu mér því 20 græn andlit þegar ég náði í hann. Fórum svo á McDonalds að ósk afmælisbarnsins. Fínn dagur.
Stefán bauð sýnum bekkjabræðrum heim í vikunni og það var mikið stuð eins og við var að búast. Hann var svakalega ánægður með veisluna og þá var tilgangnum náð. Sameiginlegt "fjölskylduafmæli" þeirra bræðra var svo haldið í gær. Synir mínir eyddu 90% af tímanum inní herbergi að æfa í hljómsveitinni sinni. Gaf Þorsteini nýtt trommusett (hitt var í molum) þannig að nú getur hann bakkað bróður sinn almennilega upp í gítarleiknum. Gaman af því - svo lengi sem það er lokað inn til þeirra!
Annars er allt gott að frétta. Eins og alþjóð veit er búið að vera kalt á klakanum þannig að tímarnir eru vondir fyrir kuldaskræfur eins og mig! Hlakka til eftir svona mánuð þegar jólaljósin verða farin að lýsa upp þetta endalausa myrkur úti...