Monday, November 06, 2006

Eitt og annað og svo annað...

Til hamingju með daginn, Stebbi og Steini!

Synir mínir eru semsagt orðnir átta og sex ára. Veisluhöld fóru að mestu stórslysalaust fram, synirnir fengu frábærar gjafir og allir sáttir.

Svo glöddu þeir mömmu sína gríðarlega mikið með því að fá hreint út sagt frábærar umsagnir frá kennurunum sínum á foreldradaginn og mjög góðar einkunnir. Stefán heldur áfram að skrifa sögur og nota sýna einstöku frásagnarhæfni við hvert tækifæri... hvort sem það á við eður ei. Hann er með einstakan orðaforða og hrósar öllum við hvert tækifæri.

Steini er í lestrarhópnum sem er duglegastur, reiknar eins og tölva (takk Bogi blýantur) og er sérstaklega kurteis og hjálpsamur við bekkjarfélaga sína. Hann er þó ekki sá duglegasti í bekknum að sitja kyrr og einbeita sér til lengdar en það er víst ekkert til að hafa áhyggjur af að svo stöddu. Aha, þá er ég búin að monta mig og halda lofræðu um syni mína! Mömmur mega það stundum :) Og svona til að vega upp á móti montinu- þá geta þeir verið bölvaðir óþekktarormar eins og strákum á þessum aldri hættir til að vera. Þó virðast þeir sitja á sér í skólanum (ennþá) og vonandi næ ég að draga þá skammlaust í gegnum skólaárið.

Svo ég blaðri nú meira um syni mína þá er ég ennþá með þá í training í húsverkum. Jamm, ég skal hunnndur heita ef að synir mínir fara gjörsamlega ósjálfbjarga úr minni umsjá.

Sumir myndu kalla þetta barnaþrælkun en þar sem þeir eru mjög viljugir að hjálpa til ennþá... þá er samviska mín hrein sem mjöll! Þeir hafa gott af smá ábyrgð. Í kringum 10 ára aldurinn geta þeir svo flutt í sýna eigin íbúð og séð um sig sjálfir!!! (hugsanlega um 11 ára aldur)

Svo við snúum okkur nú að öðru....

Lífið gengur bara nokkuð vel fyrir utan það AÐ ÉG HATA ÞENNAN KULDA OG MYRKUR!!! Mér er KALT og það er DIMMT. Ég er farin að hlakka til mánaðarmóta þegar að fólk tekur sig til og verður perubrjálað og jólaskreytingageðveikt og lífgar uppá þennan drunga. Hvað getur maður annað sagt á mánudegi í niðamyrkri??

Helgin var fín. Þar sem veðrið var skelfilega leiðinlegt þá gat maður samviskubitslaust hangið inni, hálfur undir sæng, í tölvu eða glápa á TV. Og svoleiðis helgar eru nauðsynlegar af og til. Stressið sem fylgir vinnunni safnast uppí mér eins og þrumuský og ég næ að losa mig við það svona.

Jæja, takmark dagsins er að blogga daglega alla þessa viku. Og finna upp uppskrift að graut sem gerir fólk ósýnilegt. Annað er það ekki. Þangað til á morgun....

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com