Wednesday, September 05, 2007

Oooog þá kom blogg!


Halló elskurnar mínar... þið sem hafið ekki löngu gefist upp á að skoða þetta lamaða blogg. Síðasta blogg er skrifað í lok júní - lame!

Hmm, já... þetta sumar. Búið að vera í heildina helv. fínt. Yndislegt veður hérna á klakanum síkalda. Júlí var undirlagður í vinnutörn dauðans þar sem ég vann tveggja manna starf allan júlí. Einstaklega hressandi... svona eftir á allavega. En gott að hafa nóg að gera, dagarnir líða hratt. Eins og góðir msn vinir tóku eftir, þá taldi ég niður dagana, klukkustundirnar og mínúturnar í fríið mitt sem kom á endanum um verslunarmannahelgina.

Ég og betri helmingurinn skelltum okkur til Búlgaríu í byrjun ágúst. Ég var mjög ánægð með land og þjóð og síðast en ekki síst verðlag :) Það eina sem skyggði á ferðina og fríið var að ég fékk flensu (að sjálfsögðu fékk ég flensu) seinni vikuna og nokkra daga eftir að við komum heim. Ekki gaman að vera veikur í útlöndum en ég gerði mitt allra besta til að afneita veikindunum.

Þvílíkt sældarlíf þetta var. Tjill á daginn og út að borða á kvöldin. Á komandi hrollköldum vetrardögum á ég örugglega eftir að sjá Golden Sands í hyllingum. Mæli með þessum stað fyrir þá sem vilja prófa eitthvað annað en dæmigerðar spænskar sólarstrendur. Snilldar matur, menning, sjór og veður. Og kommúnistalyktin ekki alveg farin úr loftinu ennþá þó það styttist örugglega í það.

Meðfylgjandi snákamynd er tekin 14.ágúst (fyrsti í flensu). Þeir sem hafa góðar glyrnur geta rýnt betur í myndina... á vinstri höndina mína og séð þar gullhring. Þann 14.ágúst trúlofaðist kellingin nebbilega úber-gaurnum... ekki svo löngu fyrir snákamyndatöku. OG já... ég tek öll stóru orðin til baka..."ætla aldrei að trúlofa mig aftur bla,bla,bla...". Vona bara að ég hafi ekki veðjað við neinn. Man allavega ekki eftir því :)

Synir mínir hafa haft það gott í sumar. Fóru í t.d. sumarbúðir KFUM og komu syngjandi biblíusöngva til baka. Jei! Eru nú nýbyrjaðir í 2. og 4. bekk. Aha. I rest my case. Þeir eru orðnir fullorðnir :/

Þeir áttu býsna góðan dag í gær þar sem 4 ára gamall draumur Stefáns rættist "loksins" og hann eignaðist sinn eigin rafmagnsgítar. Steini keypti sér bassa :) M.ö.o. er friðurinn úti á mínu heimili! Þeir eru búnir að safna fyrir þessu sjálfir (með góðri hjálp Steina afa) og ljómuðu eins og tvær sólir þegar þeir komu heim með gersemarnar í gær. "Þetta er tvímælalaust besti dagur lífs míns" sagði Stefán þegar hann var lagstur upp í rúm í gær. Gaman að því :)

Ég er mjög fegin að lífið er að komast í rútínu eftir sumarið. Þetta nefnilega er allt svo passlegt sko... því að í júní næstkomandi verð ég komin með hundleið á rútínunni og þá byrjar annað sumar. Merkilegt nokk hvað þetta passar allt saman vel!!

Næst á dagskrá eru svo Chris Cornell tónleikar sem ég hlakka ótrúlega til að sjá. Þangað til þá... bless í bili, babes :D
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com